Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er fyrir fólk sem vill ná auknum árangri og auka skilvirkni. Markþjálfun er aðferðafræði sem er til þess fallin að hjálpa einstaklingum að öðlast skýrari framtíðarsýn og hvernig hægt er að nýta styrkleika sína til að raungera þá sýn. Markþjálfun er samræðuferli þar sem vitundarsköpun markþegans leiðir til nýrra lausna og tækifæra. Markþjálfun á rætur sínar að rekja til ýmissa fræðigreinar, m.a. leiðtogafræði, sálfræði, félagsfræði, taugavísindi og kennslufræði.
Markþjálfi er ekki ráðgefandi heldur leggur áherslu á að viðskiptavinurinn leiti sjálfur lausna á hverju máli sem tekið er fyrir. Markþjálfinn heldur hinsvegar utan um ferlið og nær með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum að beina viðskiptavininum sjálfum að kjarna málsins.
Markþjálfun er eins og púsluspil þar sem megintilgangurinn er að leggja nokkur púsl á hverjum fundi þar til heildarmyndin er skýr. Sú mynd er í flestum tilvikum ný, fersk og kraftmikil, þar sem búið er að breyta draumum og væntingum viðskiptavinar í skýr markmið með tilheyrandi mótun aðgerða.
Ástæðan fyrir að markþjálfun hefur fest sig í sessi á undanförnum árum er einfaldlega að hún skilar árangri. Þeir sem notið hafa góðrar markþjálfunar, hvort sem er í störfum sínum eða einkalífi segja hana framúrskarandi tæki til að ná markmiðum og breyta hegðun eða einfaldlega að hugsa lífið upp á nýtt.
Tekið af https://www.profectus.is/is/markthjalfun/adrar-upplysingar/hvad-er-markthjalfun