Hverjir eru þínir styrkleikar?


 

Fyrir tveimur árum síðan hafði ég lítið sem ekkert velt fyrir mér hverjir mínir styrkleikar væru. Í námi mínu í jákvæðri sálfræði vorum við beðin um að taka styrkleikapróf og út frá því var svo ákveðin vinna sem fór í gang. Með því að vera meðvitaðari um mína styrkleika gerði það mér kleift að nýta þá með markvissari hætti. Það kom mér á óvart hversu sjaldan ég var virkilega að nýta styrkleika mína. Styrkleikar eru nefnilega ekki bara það sem við erum góð í heldur eru þeir jákvæðir eiginleikar sem koma fram í hugsunum okkar, tilfinningum og hegðun. Þeir eru mælanlegir og nokkuð stöðugir en þá má efla og styrkja með aukinni notkun.1
 
En það eru þrír þættir þurfa að koma saman svo um styrkleika sé að ræða. Styrkleikar eru byggðir á grunni hæfileika en verða til með reglulegri notkun sem færir aukna orku. Með aukinni notkun batnar frammistaðan enn frekar. Til verður hringrás þar sem þessir þrír þættir; hæfileiki, orka og notkun renna saman.2 Það er hægt að hafa hæfileika og nota hann oft. En ef hann veitir ekki orku, telst hann ekki til styrkleika. Það sama á við um athöfn sem veitir orku og er framkvæmd oft. Ef hæfnina skortir er ekki um styrkleika að ræða.
 
Í bókinni The Strength Switch talar Dr. Lea Waters um styrkleika í víðara samhengi. Kjarnastyrkleikarnir (e. core strengths) eru rótin.2 Þeir eru yfirleitt skýrir, áberandi og einkennandi fyrir þann sem yfir þeim býr. En svo eru líka til gróskustyrkleikar (e. growth strengths), sem vegna lítillar notkunar geta verið í felum og látið lítið á sér bera. Með aukinni notkun, örvun eða nærandi umhverfi geta gróskustyrkleikar vaxið, ekki síður en kjarnastyrkleikar. Fyrir utan kjarnastyrkleika og gróskustyrkleika talar Dr. Lea Waters einnig um að lærða hegðun (e. learned behavior). Lærð hegðun er ekki styrkleiki heldur þáttur sem einstaklingurinn bætir við sig vegna umhverfisþátta, ytri verðlauna eða krafna samfélagsins. Lærð hegðun er hegðun sem við erum góð í og notum mikið en veitir okkur ekki orku og flokkast því ekki sem styrkleiki.2        
              Hægt er að greina styrkleika með mismunandi aðferðum og til eru ýmis tól sem geta hjálpað fólki að finna og greina styrkleika sína. VIA styrkleikaprófið er einna þekktast. Prófið inniheldur fjölda spurninga og greinir 24 styrkleika sem einkenna einstaklinginn.3 Þar að auki er hægt að fara í svokallaða styrkleikaþjálfun. Í styrkleikaþjálfun hjálpar ráðgjafi einstaklingnum að greina sína styrkleika og finna leiðir til að nota þá með markvissari hætti. Að lokum er hægt að setja niður skref eða minni markmið sem einstaklingar geta notað til þess að rækta sína styrkleika og æfa sig í að nýta þá í hinum ýmsu aðstæðum.
 
En af hverju er gott að vita hverjir styrkleikar sínir eru? Vegna þess að einstaklingar sem eru meðvitaðir um styrkleika sína og nota þá á markvissan hátt hafa meira sjálfsálit, meiri orku, finni aukna vellíðan, aukna hamingju og ná frekar árangri í lífi og starfi.4 og 5
 
Langar þig að vita hverjir styrkleikar þínir eru og hvernig þeir geta hjálpað þér enn meira að vaxa og dafna í lífinu? Hafðu samband og við skulum finna út úr því saman!
Sara Tosti 

 

 

 

Heimildir

  1. Peterson, C., & Seligman, M. E. (2004). Character strengths and virtues. In A handbook and classification. https://doi.org/313971759
  2. Lea Waters, P. (2017). The Strength Switch (pp.59-80). Scribe Puplications: London.
  3. Kauffman, C. (2006). Positive psychology: The science at the heart of coaching. Evidence Based Coaching Handbook: Putting Best Practices to Work for Your Clients, 219–253.
  4. Guney, S. (2011). The Positive Psychotherapy Inventory (PPTI): Reliability and Validity Study in Turkish Population. Procedia – Social and Behavioral Sciences, 29, 81-86. https://doi.org/10.1016/j.sbspro.2011.11.209
  5. Seligman, M. E. P., Steen, T. A., Park, N., & Peterson, C. (2005). Positive psychology progress: empirical validation of interventions. The American Psychologist, 60(5), 410–421. https://doi.org/10.1037/0003-066X.60.5.410